Gosið sem hefur ekki orðið
Það fór allt á hliðina í samfélaginu í byrjun nóvember þegar kvikugangur uppgötvaðist undir Grindavík í kjölfar langrar jarðskjálftahrinu. Bærinn var rýmdur í flýti, nánast í skjóli nætur, atvinnustarfsemi stöðvuð og íbúar fengu ekki að vitja eigna sinna í marga daga og hafa verið á vergangi síðan.
Fjölmiðlar hafa keppst við að flytja hamfarafréttir af stöðunni, rætt við hvern jarðfræðinginn á fætur öðrum og þeir sem eru hvað dramatískastir fá flestar fyrirsagnir og mesta plássið. Upplýsingafundir almannavarna voru dregnir aftur á flot og við fórum að sjá brúnaþungan Víði segja okkur frá mögulegum hamförum framundan og að við eigum að passa okkur, eins og á tímum COVID, fólki sem elskar ringulreið og óáþreifanlegt hættuástand til upplyftingar.
Þessar ógnvekjandi fréttir hafa farið eins og eldur í sinu um erlenda fjölmiðla og ástandið virst stigmagnast við hverja fréttina. Fréttaflutningurinn er á þá leið að eldgos sé hafið og fólki hefur verið ráðið frá ferðum til Íslands. Þessi tónn hefur orðið til þess að bæði Play og Icelandair hafa þurft að fella úr gildi afkomuspár fyrir fjórðunginn vegna breytinga á bókunarstöðu. Önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa orðið áþreifanlega vör við afbókanir og fækkun ferðamanna. Allt hefur þetta áhrif á störf fólks og afkomu þess.
Það er ánægjulegt að Grindavík er farin að glæðast lífi aftur þó skemmdirnar séu miklar og langan tíma muni taka að byggja bæinn upp. Atvinnulífið er farið aftur af stað og íbúar mega vitja heimilia sinna yfir daginn. En stóra spurningin er hvort smellirnir á hamfarafréttirnar, sem eru stórlega ýktar, séu þess virði að bregða fæti fyrir eina stærstu útflutningsgrein okkar Íslendinga og þar með leggja afkomu fjölda fólks og fyrirtækja í hættu?