Business as usual
Borgin gaf konum og kvárum greiddan frídag í vikunni sem varð til þess að margir skólar voru lokaðir allan daginn. Af hverju kollegar þeirra í karlkyni gátu ekki haldið úti lágmarksþjónustu fyrir yngstu börnin þennan eina dag er enn á huldu. En þar með bættist heill dagur við vikufrí sem fjöldi fjölskyldna höfðu áður þurft að púsla saman vegna vetrarfrís og starfsdaga á mjög stuttum tíma. Sjálf bý ég svo vel að hafa sveigjanlegan vinnutíma og sterkt bakland. Það er ekki veruleikinn fyrir öll.
Rekstraraðili í miðborginni nýtti svo tækifærið og fékk frægustu karlkyns stjörnur landsins til að koma og starfa á veitingastaðnum sínum þar sem hann sá fyrir sér að rukka konur og kvár 21% minna fyrir bollann en aðra daga vegna launamunar kynjanna. Ekki fylgdi sögunni hvar hann fékk út að sá munur hlypi á tugum prósenta, en markaðsmál virðast liggja betur fyrir honum en prósentureikningur því allir stærstu miðlar landsins fjölluðu um uppátækið. Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu stendur rekstraraðili kynlífsverslunar - sem er reyndar kvenkyns - í stappi við Neytendastofu fyrir áþekkt uppátæki í markaðsskyni.
Baráttu gegn misrétti og kynbundnu ofbeldi er sannarlega þörf. En í þetta sinn held ég að skipuleggjendur hafi misst sjónar á markmiðinu. Það er tvíeggjað sverð að gefa það út að kvennaverkfall eigi að verða greiddur frídagur með tilheyrandi raski á grunnþjónustu við fjölskyldur. Það er sennilega af ástæðu að samfélagið sættist á að frídagar verði til í gegnum kjarasamninga og verkföll séu greidd úr verkfallssjóðum stéttarfélaga.
Því baráttudagur kvenna fyrir jafnari stöðu á vinnumarkaði í ár virðist vera orðinn að aukafrídegi fyrir suma og markaðsstönti fyrir aðra. Fyrir margar barnafjölskyldur í Reykjavík var einfaldlega bölvað hark að púsla deginum saman - með öðrum orðum, business as usual.
Birtist í Viðskiptablaðinu 25.10.23