Dagur í lífi
Morgunrútínan samanstendur ekki af hugleiðslu og ísböðum eins og má lesa um á síðum blaðanna. Þau eru á þönum eins og flest fólk á þeirra reki.
Þau byrja daginn á að koma dóttur sinni í Ísaksskóla og syninum í Hjallstefnuleikskólann. Síðan þarf að kaupa mjólk í kaffið í Krambúðinni. Eftir það er stefnan sett á Heilsugæsluna Kirkjusandi til að fá tilvísun til sjúkraþjálfara. Hún heldur beint þangað frá Kirkjusandi. Hann frestar tannlækninum til morguns svo hann komist í vinnuna. Til að spara tíma greiða þau æfingagjöldin í fimleikana og fótboltann í gegnum Sportabler og panta bjór og rauðvín fyrir matarboðið í vefverslun Sante.
Ekkert af þessum fyrirtækjum er rekið af hinu opinbera. Öll eiga þau sameiginlegt að þessum verkefnum var sinnt af hinu opinbera áður fyrr. Í mörgum tilfellum, sérstaklega á sviði menntunar og heilbrigðismála veltum við ekki einu sinni fyrir okkur hvort við erum að sækja þjónustu hjá opinberri stofnun eða einkaaðila. Enda hefur reynst vel að gera samninga um þau verkefni sem þarf að sinna í stað þess að fjárfesta í húsnæði og búnaði sem til þarf, ráða fólk, þjálfa það upp í verkefni sem þarf kannski ekki að sinna eftir nokkur ár. Þá er hægt að segja upp samningi í stað þess að ráðast í niðurskurð hjá hinum opinbera, sem virðist vera erfiðara en að koma bíl til tunglsins.
Eins og Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo skemmtilega í hlaðvarpi Þjóðmála á dögunum, þá er er alvanalegt að sækja sér sjúkratryggða heilbrigðisþjónusta utan spítala. Einkarekstur í þessum málaflokkum hljómar illa í eyrum margra, en flestir sækja sér slíka þjónustu umhugsunarlaust. Harðir talsmenn opinbers reksturs senda börnin jafnvel í einkaskóla og fá kampavín heimsent.