Tími er peningar
Fólk sem búið hefur í erlendum borgum þekkir oft vel kosti skilvirkra almenningssamgangna og góðra innviða til hjólreiða. Slíkt minnkar umferðartafir, er hagkvæm nýting á skattfé, stuðlar að heilsusamlegra umhverfi og sparar útgjöld heimilanna.
Samkvæmt nýlegri könnun vilja einungis 35% íbúa á höfuðborgarsvæðinu ferðast til vinnu á einkabíl. Hin 65% vilja nýta aðra kosti. Samkvæmt sömu könnun er þessu þó öfugt farið, um 63% ferðast til vinnu á einkabíl. Þetta sýnir skýran vilja til breyttra ferðavenja og ætti að hvetja stjórnmálamenn til að efla aðra kosti. Þannig munu íbúar hafa raunverulegt frelsi til að velja ferðamáta.
Frá því fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var kynnt árið 2010 hefur hlutur hjólandi í ferðum borgarinnar aukist jafnt og þétt, úr 2% allra ferða í 7%. Hjólreiðaáætlun til ársins 2025 er nú í vinnslu og miðar að því að fjölga þeim sem hjóla enn frekar með metnaðarfullum hugmyndum. Hjólreiðar eru hagkvæmur, sveigjanlegur, heilsusamlegur og skemmtilegur ferðamáti.
Góðar almenningssamgöngur þurfa að vera áreiðanlegar, tíðar, hraðvirkar, aðgengilegar og þægilegar. Borgarlínan hefur þetta allt saman. Tíðnin verður meiri en hjá Strætó, aðgengileikinn og þægindi nást með betri biðstöðvum, áreiðanleikinn og hraðinn með sérakreinum. Sérakreinar eru lykilatriði til að Borgarlínan virki fyrir notendur, það má því ekki gefa afslátt af þeim.
Kostnaður við Borgarlínuna er áætlaður um 70 milljarðar. Fjárhæðin er há, en gott er að skoða hana í samhengi. Áætlað er að Borgarlínan verði alls um 58 kílómetrar og þegar fyrsti áfangi verði tilbúinn muni um 50 þúsund farþegar nýta sér hana daglega. Til samanburðar má benda á að Dýrafjarðargöng, nýjustu jarðgöng Íslendinga, eru 5,6 kílómetrar og er áætlað að þau flytji um 200 bíla á dag. Þau kostuðu um níu milljarða. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr samgöngubótum á landsbyggðinni, nema síður sé. En því verður ekki neitað að Borgarlína er hagkvæm fjárfesting í samanburði við margar aðrar innviðafjárfestingar hérlendis.
Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar ört. Haldist ferðavenjur óbreyttar munu umferðartafir aukast verulega, jafnvel þó fjárfest verði í innviðum fyrir bíla. Kostnaðurinn er margvíslegur, eldsneytiskostnaður, mengun og síðast en ekki síst þjóðhagslegt tap vegna þess tíma sem fer í súginn hjá borgarbúum. Margvíslegur dulinn kostnaður er fyrir einkaaðila, svo sem kostnaður við bílahús og bílastæði við heimili og vinnustaði.
Lausnin felst í fjölbreyttum kostum. Með bættum stofnvegum, betri umferðarljósastýringu, góðum hjólainnviðum og þróun skilvirkra almenningssamgangna ættu flest að geta komist ferða sinna fljótt og vel á hagkvæman og einfaldan hátt. Þannig fáum við öll borg sem er gott að búa í.