Tími er peningar

Fólk sem búið hefur í er­lendum borgum þekkir oft vel kosti skil­virkra al­mennings­sam­gangna og góðra inn­viða til hjól­reiða. Slíkt minnkar um­ferðar­tafir, er hag­kvæm nýting á skatt­fé, stuðlar að heilsu­sam­legra um­hverfi og sparar út­gjöld heimilanna.

Sam­kvæmt ný­legri könnun vilja einungis 35% íbúa á höfuð­borgar­svæðinu ferðast til vinnu á einka­bíl. Hin 65% vilja nýta aðra kosti. Sam­kvæmt sömu könnun er þessu þó öfugt farið, um 63% ferðast til vinnu á einka­bíl. Þetta sýnir skýran vilja til breyttra ferða­venja og ætti að hvetja stjórn­mála­menn til að efla aðra kosti. Þannig munu í­búar hafa raun­veru­legt frelsi til að velja ferða­máta.

Frá því fyrsta hjól­reiða­á­ætlun Reykja­víkur var kynnt árið 2010 hefur hlutur hjólandi í ferðum borgarinnar aukist jafnt og þétt, úr 2% allra ferða í 7%. Hjól­reiða­á­ætlun til ársins 2025 er nú í vinnslu og miðar að því að fjölga þeim sem hjóla enn frekar með metnaðar­fullum hug­myndum. Hjól­reiðar eru hag­kvæmur, sveigjan­legur, heilsu­sam­legur og skemmti­legur ferða­máti.

Góðar al­mennings­sam­göngur þurfa að vera á­reiðan­legar, tíðar, hrað­virkar, að­gengi­legar og þægi­legar. Borgar­línan hefur þetta allt saman. Tíðnin verður meiri en hjá Strætó, að­gengi­leikinn og þægindi nást með betri bið­stöðvum, á­reiðan­leikinn og hraðinn með sér­ak­reinum. Sér­ak­reinar eru lykil­at­riði til að Borgar­línan virki fyrir not­endur, það má því ekki gefa af­slátt af þeim.

Kostnaður við Borgar­línuna er á­ætlaður um 70 milljarðar. Fjár­hæðin er há, en gott er að skoða hana í sam­hengi. Á­ætlað er að Borgar­línan verði alls um 58 kíló­metrar og þegar fyrsti á­fangi verði til­búinn muni um 50 þúsund far­þegar nýta sér hana dag­lega. Til saman­burðar má benda á að Dýra­fjarðar­göng, nýjustu jarð­göng Ís­lendinga, eru 5,6 kíló­metrar og er á­ætlað að þau flytji um 200 bíla á dag. Þau kostuðu um níu milljarða. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr sam­göngu­bótum á lands­byggðinni, nema síður sé. En því verður ekki neitað að Borgar­lína er hag­kvæm fjár­festing í saman­burði við margar aðrar inn­viða­fjár­festingar hér­lendis.

Í­búum á höfuð­borgar­svæðinu fjölgar ört. Haldist ferða­venjur ó­breyttar munu um­ferðar­tafir aukast veru­lega, jafn­vel þó fjár­fest verði í inn­viðum fyrir bíla. Kostnaðurinn er marg­vís­legur, elds­neytis­kostnaður, mengun og síðast en ekki síst þjóð­hags­legt tap vegna þess tíma sem fer í súginn hjá borgar­búum. Marg­vís­legur dulinn kostnaður er fyrir einka­aðila, svo sem kostnaður við bíla­hús og bíla­stæði við heimili og vinnu­staði.

Lausnin felst í fjöl­breyttum kostum. Með bættum stofn­vegum, betri um­ferðar­ljósa­stýringu, góðum hjóla­inn­viðum og þróun skil­virkra al­mennings­sam­gangna ættu flest að geta komist ferða sinna fljótt og vel á hag­kvæman og ein­faldan hátt. Þannig fáum við öll borg sem er gott að búa í.

Birtist í Fréttablaðinu 25.3.21