Stelpur geta allt!
Haustið 2019 voru hjólreiðar 7% af öllum ferðum borgarinnar. Karlar og strákar fóru 10% ferða sinna á hjóli en konur og stelpur einungis 4%. Þessi munur er til staðar á öllum aldursbilum. Drengir 6-12 ára fara 31% ferða á hjóli en stelpur 17%. Þessi munur snareykst svo í aldurshópnum 13-17 ára þar sem strákar fara 17% ferða á hjóli en stúlkur bara 2%! Þetta má sjá glögglega í borginni, það sjást oft strákahópar á hjólum að þvælast á milli staða en síður stelpuhópar.
Þessi munur vakti athygli okkar í stýrihóp um nýja hjólreiðaáætlun Reykjavíkur. Við viljum sjá jafnari hlutdeild ferða milli kynja. Betri hjólaborg eykur lífsgæði allra borgarbúa. Loftgæði verða betri, íbúar verða heilsuhraustari og tafir í bílaumferð verða minni. Frelsi til að ferðast Þegar börn læra að hjóla og þegar við sleppum af þeim takinu þegar þau byrja í skóla stækkar heimurinn þeirra margfalt. Á hjóli komast þau lengra og hraðar yfir en á fæti og það verður minni þörf fyrir skutl. Börn sem hjóla eða ganga til skóla einbeita sér betur og sýna að meðaltali betri árangur í námi sínu. Fyrir utan hvað er gaman að hjóla, láta vindinn leika um andlitið og fá blóðið smá á hreyfingu. Þvílíkt frelsi!
Hvað veldur því að stelpur hjóla síður en strákar? Konur 25-44 ára eru helmingi ólíklegri til að hjóla en karlar. Stelpur hafa því síður fyrirmynd í mæðrum sínum. Höfða hjólreiðar síður til stelpna? Eru foreldrar síður að hvetja þær til hjólreiða? Eru hjól ætluð stelpum ekki eins þægileg og góð og hjól sem eru ætluð strákum? Eru þau þyngri eða með færri gíra? Hafa þær áhyggjur af því að hjálmurinn rugli hárinu á þeim?
Rafhjólum fjölgar hratt og þá skipta brekkur og rok síður máli við val á samgöngumáta. Einnig hefur notkun á rafhlaupahjólum aukist. Gætu rafhjól aukið áhuga kvenna á hjólreiðum? Þetta eru spurningar sem við ættum öll að spyrja okkur. Ég hvet foreldra til að efla stelpurnar sínar til hjólreiða, það er ekkert sem segir að stelpur geti ekki hjólað, því stelpur geta allt!