Skyldur og gæluverkefni
Íslensk sveitarfélög þurfa samkvæmt lögum að rækja margvíslegar skyldur og hafa til þess ýmsa tekjustofna. Til viðbótar við lögbundin verkefni hafa sveitarfélögin heimild til að sinna ýmsu öðru. Í tilviki Reykjavíkurborgar er það svo sannarlega raunin.
Innan samstæðu borgarinnar, svokallaðs B-hluta, er að finna fyrirtæki á borð við Faxaflóahafnir, Félagsbústaði, Malbikunarstöðina Höfða hf., Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó bs. og Sorpu bs. Innan Orkuveitu Reykjavíkur er síðan fjöldi dótturfélaga, þar á meðan Gagnaveita Reykjavíkur. Yfirlýst hlutverk hennar er „að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti“. Þetta er í daglegu tali kallað nettenging.
Hvergi er fjallað um beinan rekstur netþjónustu í lögum um skyldur sveitarfélaga. Það er því ekki hlutverk borgarinnar, né fyrirtækja í hennar eigu, að veita þá þjónustu. Ekki frekar en að borgin eigi að sjá borgurunum fyrir matskeið af lýsi á morgnana, eins hollt og það er nú samt. Borgin ætti því að huga að sölu Gagnaveitunnar við fyrsta tækifæri.
Samhliða ætti borgin að losa sig við eignahlut sinn í Sorpu. Sorphirða er víða boðin út á Íslandi og sérhæfð fyrirtæki bjóða þá þjónustu á samkeppnismarkaði, nema auðvitað þar sem sveitarfélagið heldur uppi einokunarstarfsemi. Sorpa hefur reynst eitt risastórt lóð um háls hins syndandi skattgreiðenda og gæti hvenær sem er orðið óbærilega þungt.
Almennt má segja að því minni rekstur sem er á könnu hins opinbera, því minni líkur eru á því að skatt- og útsvarsgreiðendur sitji uppi með risastóra reikninga eftir óráðsíu og mistök. Það er því áríðandi að losna við rekstur eins og Gagnaveituna og Sorpu úr miðstýringu ráðhússins. Fólk mun eftir sem áður geta keypt sér aðgang að „opnu aðgangsneti“ og losnað við sorpið um leið og það tekur inn sitt eigið lýsi.
Birtist í Morgunblaðinu 11.12.20