Skyldur og gæluverkefni

Íslensk sveitarfélög þurfa samkvæmt lögum að rækja margvíslegar skyldur og hafa til þess ýmsa tekjustofna. Til viðbótar við lögbundin verkefni hafa sveitarfélögin heimild til að sinna ýmsu öðru. Í tilviki Reykjavíkurborgar er það svo sannarlega raunin.

Innan samstæðu borgarinnar, svokallaðs B-hluta, er að finna fyrirtæki á borð við Faxaflóahafnir, Félagsbústaði, Malbikunarstöðina Höfða hf., Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó bs. og Sorpu bs. Innan Orkuveitu Reykjavíkur er síðan fjöldi dótturfélaga, þar á meðan Gagnaveita Reykjavíkur. Yfirlýst hlutverk hennar er „að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti“. Þetta er í daglegu tali kallað nettenging.

Hvergi er fjallað um beinan rekstur netþjónustu í lögum um skyldur sveitarfélaga. Það er því ekki hlutverk borgarinnar, né fyrirtækja í hennar eigu, að veita þá þjónustu. Ekki frekar en að borgin eigi að sjá borgurunum fyrir matskeið af lýsi á morgnana, eins hollt og það er nú samt. Borgin ætti því að huga að sölu Gagnaveitunnar við fyrsta tækifæri.

Samhliða ætti borgin að losa sig við eignahlut sinn í Sorpu. Sorphirða er víða boðin út á Íslandi og sérhæfð fyrirtæki bjóða þá þjónustu á samkeppnismarkaði, nema auðvitað þar sem sveitarfélagið heldur uppi einokunarstarfsemi. Sorpa hefur reynst eitt risastórt lóð um háls hins syndandi skattgreiðenda og gæti hvenær sem er orðið óbærilega þungt.

Almennt má segja að því minni rekstur sem er á könnu hins opinbera, því minni líkur eru á því að skatt- og útsvarsgreiðendur sitji uppi með risastóra reikninga eftir óráðsíu og mistök. Það er því áríðandi að losna við rekstur eins og Gagnaveituna og Sorpu úr miðstýringu ráðhússins. Fólk mun eftir sem áður geta keypt sér aðgang að „opnu aðgangsneti“ og losnað við sorpið um leið og það tekur inn sitt eigið lýsi.

Birtist í Morgunblaðinu 11.12.20

Spriklandi frísk börn

Rannsóknir sýna að skipulagt íþróttastarf hefur jákvæð áhrif á líðan barna og mikið forvarnargildi. Börnum sem eru virk í skipulögðu íþróttastarfi líður betur, vinna betur í hóp og eru ólíklegri til að neyta vímuefna. Niðurstöður úr Ánægjuvoginni 2020 sýna að tæp 90% barna eru ánægð með þjálfarann sinn og íþróttafélagið sitt og finnst gaman á æfingu. Íþróttastarf barna á Íslandi þykir svo vel heppnað að tekið hefur verið eftir.

Börn fengu ekki að stunda skipulagt íþróttastarf í sjö vikur á vorönn og sex vikur á haustönn vegna faraldursins. Æfingabann barna og ungmenna eldri en 15 ára stendur enn yfir og er ófyrirséð hversu lengi það mun standa. Fyrir utan öll jákvæðu áhrifin sem skipulagt íþróttastarf hefur á börn, þá eru heilbrigt líferni og hreyfing talin draga úr áhættuþáttum COVID-19.

Íþróttafélögin hafa mörg staðið sig mjög vel með fjaræfingum og hvatningu til iðkenda. Það kemur þó aldrei í staðinn fyrir samskiptin og handleiðsluna sem fylgir skipulögðu íþróttastarfi. Þegar er farið að bera á brottfalli og það þarf ekki að fjölyrða um hversu slæmar afleiðingar það mun hafa fyrir framtíðina. Sérstaklega fyrir þau börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttum og þau sem eru á viðkvæmasta aldrinum með tilliti til brottfalls.

Faraldurinn er ekki að hverfa úr okkar daglega lífi á næstunni. Það er því mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar upp koma tímabil þar sem takmarka þarf íþróttaiðkun barna. Ástæðan fyrir æfingabanni barna í október var að ekki mætti blanda saman börnum milli skóla. Það þarf að finna leiðir svo skólar og íþróttafélög geti unnið saman til að halda þessu mikilvæga starfi gangandi. Lausnin þarf ekki að vera sú sama fyrir hvert íþróttafélag eða skóla, en það þarf að opna á þetta samtal og samstarf. Íþróttastarf barna er nefnilega eitt mikilvægasta lýðheilsumálið.

Birtist í Fréttablaðinu 1.12.2020

Skuldahali Reykjavíkur

Haustið 2005 skrifaði Magnús Þór Gylfason grein í Þjóðmál þar sem meðal annars var tæpt á rekstri Reykjavíkurborgar. Á þeim tíma hafði R-listinn setið við stjórnvölinn frá árinu 1994 undir stjórn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Skuldirnar höfðu vaxið geigvænlega, úr fjórum milljörðum í lok árs 1993 í 65 milljarða í árslok 2005.

Af hverju að rifja þetta upp núna? Árið 2002 gekk Dagur B. Eggertsson til liðs við R-listann. Úr R-listanum varð síðar til Samfylkingin, sem hefur stjórnað borginni samfleytt í 10 ár, síðan 2010. Dagur varð borgarstjóri árið 2014 og gegnir enn því embætti. Skuldasöfnunin heldur áfram. Þannig má segja að R-listinn og skilgetið afkvæmi hans hafi safnað skuldum í Reykjavík linnulítið í rúman aldarfjórðung.

Skuldir víðast að lækka                                                 

Á síðustu árum nýttu landsmenn, fyrirtæki, mörg sveitarfélög og síðast en ekki síst ríkissjóður hagvaxtartímabilið vel og unnu ötullega að lækkun skulda og sparnaði. Lækkun sem gerir til dæmis ríkissjóði kleift að takast á við áhrif heimsfaraldurs sem sett hefur allt þjóðfélagið úr skorðum með samdrætti og vaxandi atvinnuleysi. Skuldir ríkisins hafa lækkað um 588 milljarða, eða 39%, frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn árið 2013.

Annað er upp á teningunum hjá Reykjavíkurborg, þar sem skuldum hefur verið safnað á fordæmalitlum góðæristímum. Frá árinu 2010 hafa skuldir A-hluta borgarsjóðs, það er skuldir borgarinnar án dótturfyrirtækja hennar, aukist um 82% á föstu verðlagi þrátt fyrir að skatttekjur hafi aukist um 54%. Heildarskuldir í árslok 2019 voru 112 milljarðar en skatttekjur ársins voru 99 milljarðar. Þannig voru skuldir 13% hærri en tekjur ársins.

2020.03-Katrín-Atla-Heildarskuldir-A-hluta-borgarsjóðs.jpg

Séu lífeyrisskuldbindingar teknar til hliðar hafa skuldirnar aukist um 49% að raunvirði frá 2010 til 2019. Þetta gerist á einu lengsta góðæristímabili í hagsögu Íslands, þar sem hagvöxtur var jákvæður níu ár í röð. Flestir skattar og gjöld eru og hafa verið í leyfðu hámarki.

Skuldir á hvern Reykvíking hafa hækkað úr 545 þúsund krónum árið 2010 í 915 þúsund krónur í lok síðasta árs, á föstu verðlagi, eða úr um 2,2 milljónum króna í tæpar 3,7 milljónir króna á fjögurra manna fjölskyldu, Þetta er tæplega 68% hækkun skulda á hvern íbúa, sem skattar þeirra þurfa að standa undir, en þeir hafa á sama tíma hækkað um 42% á hvern íbúa.

2020.03-Katrín-Atla-Reykjavíkurborg-skuldir-á-íbúa.jpg

Þá nýtir Reykjavíkurborg sér heimild til að undanskilja Orkuveitu Reykjavíkur, sem er 94% í eigu borgarinnar, við útreikning á skuldahlutfalli. Spyrja má hvort það gefi rétta mynd af skuldastöðu borgarinnar.

Fram undan eru erfiðir tímar hjá borgarsjóði vegna tekjufalls sem vart er hægt að mæta með öðru en hagræðingu. Sú hagræðing verður mun sársaukafyllri en hún hefði verið ef aðhalds hefði verið gætt síðustu ár. Grunnþjónustu borgarinnar stafar ógn af óstjórn borgarinnar. Það þarf ekki að fjölyrða um að ekkert svigrúm er hjá fólki eða fyrirtækjum í borginni til að greiða hærri skatta.

Viðreisn og skuldasöfnunin

Viðreisn gekk til samstarfs við meirihlutann í borginni um mitt ár 2018. Ekki er að sjá mikla breytingu á skuldasöfnun borgarinnar eftir það. Flokkurinn lofaði fyrir kosningar að greiða niður skuldir á góðæristímum og í sáttmála meirihlutans stendur: „Borgin skal rekin með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Skuldir skulu greiddar niður meðan efnahagsástandið er gott.“ Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að Viðreisn kom inn í samstarfið hafa skuldir aukist um 16 milljarða. Það er um 650 milljóna króna skuldaaukning á mánuði frá því að Viðreisn komst til valda.

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, orðaði þetta vel í grein sinni um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022 sem hann skrifaði árið 2018 á vidreisn.is:

 „Á kosningaárinu 2022 verða fjárfestingar sem sagt í lágmarki og aðhald mikið. Einmitt. Við eigum líka að trúa því að þrátt fyrir að nú sé Reykjavík að auka skuldir sínar í bullandi góðæri þá munu stjórnmálamenn á kosningaárinu 2022 keppast við að slá met og uppgreiðslu skulda. […] Allt þetta er sama marki brennt og dansar á mörkum ofurbjartsýni og ótrúverðugleika. Hér er treyst á að stjórnmálamenn í framtíðinni, sem verða að öllum líkindum í mun verri aðstöðu til að greiða niður skuldir, muni af einhverjum ástæðum keppast við að gera það. Kosningaloforð Dags liggja þá fyrir. Í stað þess að skapa svigrúm til fjárfestinga í framtíðinni ætlar borgarstjórinn að fjárfesta eins og aldrei fyrr á toppi hagsveiflunnar og skera svo harkalega niður eftir því sem um hægist og þörf fyrir slíkar fjárfestingar eykst.“

Á aðeins tveimur árum frá því að áætlunin sem Pawel nefnir var gerð tók þessi spá töluverðum breytingum. Í fjárhagsáætlun 2020-2024 var áætlað að hreinar skuldir árið 2022 yrðu 54 milljarðar, eða rúmlega tvisvar sinnum hærri upphæð en tveimur árum áður.

2020.03-Katrín-Atla-Hreinar-skuldir-Reykjavíkur-samkvæmt-fjárhagsáætlun.jpg

Heimild: Fjárhagsáætlun Reykjavíkur

Pawel hitti því naglann á höfuðið. Nú hefur hægst um og þörfin fyrir fjárfestingar aukist. Draga mun úr tekjum enda tekjustofnar sveitarfélaga allnokkuð háðir hagsveiflu. Því blasir við að borgin mun þurfa að skera harkalega niður á næstu árum.

Borgin staðfestir áhyggjur

Á sama tíma og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, sagði rekstur borgarinnar blómlegan og kannaðist ekki við beiðni um neyðaraðstoð borgarinnar til ríkisins var eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs, aðgerðapakka tvö, send fyrir hönd Reykjavíkurborgar, undirrituð af sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar:

„Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára framundan standa undir afborgunum.

Þetta eru meginrökin fyrir því að ríkið komi með beinan óendurkræfan stuðning til sveitarfélaganna sem tryggir að þau geti staðið undir þjónustuskyldum sínum við íbúana og heimilin og staðið með atvinnulífinu a.m.k. að því marki sem alþingi hefur samþykkt með lögum. Ef bein óendurkræf framlög ríkisins vegna ársins 2020 myndu nema 50 milljörðum fyrir sveitarfélögin og viðbótarframlög vegna 2021 kæmu síðar þegar greiningar liggja fyrir, sýnir ofangreind fjármálagreining að tryggja þarf jafnframt aðgengi sveitarfélaganna að lánum fyrir a.m.k. jafnháar fjárhæðir hjá Seðlabanka Íslands á hagkvæmustu kjörum ríkisins með 5-7 afborgunarlaus ár í upphafi lánstímans.“

Íbúar Reykjavíkur árið 2020 eru tæp 56% af íbúum höfuðborgarsvæðisins, svo gera má ráð fyrir að hlutdeild Reykjavíkurborgar í ofangreindri neyðaraðstoð yrði um 56 milljarðar af þeim 100 milljörðum sem óskað er eftir strax.

Vandanum velt á fólk og fyrirtæki

Þegar öllu er á botninn hvolft hefur fjármálastefna meirihlutans leitt borgina í algjörar ógöngur, þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð. Þegar öll sund eru að lokast er svo brugðið á það ráð að leita til ríkisins til að leysa vandamálið. En það má svo sem líta á það sem jákvætt, þar sem fyrsta skrefið í átt að bata er að viðurkenna vandamálið.

„Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur, það þarf atorku og ráðdeild og framsýni og þollyndi,“ sagði Jón Sigurðsson í miðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Það má svo sannarlega yfirfæra þessi orð hans á Reykjavíkurborg.

Upplýsingar um mannfjölda og VNV eru fengnar frá Hagstofu Íslands. Upplýsingar um tekjur og skuldir Reykjavíkur eru fengnar úr fjárhagsáætlunum, árs- og árshlutareikningum Reykjavíkur. Upplýsingar um skuldastöðu ríkisins eru fengnar úr frumvarpi til fjárlaga fyrir 2021.

Birtist í hausthefti Þjóðmála 2020

Með vindinn í hárinu

Árið 2010 samþykkti borgarstjórn fyrstu hjólreiðaáætlun Reykjavíkur. Yfirskrift hennar var Hjólaborgin Reykjavík. Síðan þá hefur hlutdeild hjólreiða sem ferðamáta í borginni aukist jafnt og þétt eftir því sem innviðir hafa byggst upp og áhugi aukist á hreyfingu, útivist og heilbrigðum lífsstíl. Samkvæmt ferðavenjukönnun árið 2019 er hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í Reykjavík 7% en markmið hjólareiðaáætlunar sem rennur sitt skeið á enda í lok þessa árs var 6,5%.

Nú stendur yfir vinna við hjólreiðaáætlun til 2025 sem ég stýri ásamt fulltrúum úr meirihlutanum. Það er kominn tími til að taka hjólreiðar í borginni í næsta gír og því mikil og spennandi vinna fram undan. Hópurinn er sammála um að öryggi skuli vera rauði þráðurinn í nýrri áætlun, svo öllum líði eins og þau geti ferðast örugglega á milli staða á hjóli. Hjólreiðar eiga að vera fyrir alls konar fólk og á alls konar hjólum.

Á tímum COVID hafa hjólreiðar aukist í borgum Evrópu. Í Reykjavík var ásóknin slík í vor að hjólabúðir voru margar hverjar tómar. Ríkisstjórnir heims keppast við að fjárfesta í grænni og heilsusamlegri ferðamátum, þau áhrif má sjá hér í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Með nýrri tækni aukast tækifæri til hjólreiða. Rafhjólum fjölgar hratt og þá skipta brekkur og rok síður máli við val á samgöngumáta.

Samkvæmt nýlegri könnun Maskínu vilja 27% höfuðborgarbúa helst hjóla til vinnu en 10% gera það samkvæmt sömu könnun. Það er okkar hlutverk í stýrihópnum um nýja hjólreiðaáætlun að komast að því hvað vantar upp á til að fólk hjóli og bæta úr því. Fólk þarf að hafa frelsi til að velja þann ferðamáta sem það kýs helst.

Í mínum huga er lúxus að hjóla, fá tíma til að hugsa málin, hlaða rafhlöðuna, fá blóðið á hreyfingu og roða í kinnarnar. Engin bið í umferð og ég legg við dyrnar á áfangastað án þess að leita að bílastæði. Svo er líka bara svo skemmtilegt að hjóla.

Birtist í Fréttablaðinu 10.11.2020

Plástur á sárið

Við siglum nú inn í áttunda mánuð fordæmalausra tíma.

Undanfarið hefur ýmislegt vanist sem virtist fjarstæðukennt í ársbyrjun. Knúsleysi, ferðatakmarkanir og þríeykið á skjánum, svo fátt eitt sé nefnt. Annað venst þó ekki jafn vel, eins og tekjuhrun og óvissa þeirra sem byggja lífsviðurværi sitt á heimsóknum ferðamanna og samkomum fólks.

Undanfarin ár hefur sprottið upp fjölbreytt flóra veitingahúsa um allt land, ekki síst í miðborg Reykjavíkur, með fjölda starfa og jákvæðum áhrifum á mannlífið. Íslensk handverksbrugghús eru annar ungur geiri, en þau eru nú á þriðja tug á landinu og tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð, greiða skatta og draga gesti í sín sveitarfélög. Starfsfólk og eigendur þessara fyrirtækja horfa nú fram á allt annan veruleika en á sama tíma fyrir ári.

Í mars skoraði veitingafólk á dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp um jafnræði í netverslun með áfengi. Staðir sem reiða sig nú að mestu á heimsendingar gætu þannig sent vel valin gæðavín eða bjór heim með matnum. Þannig mætti jafnvel auka veltuna nóg til að halda velli í gegnum stærsta skaflinn.

Í haust tóku handverksbrugghús undir og skoruðu samhliða á ráðherra að tryggja rétt smáframleiðenda til sölu á framleiðslustað. Brugghúsin höfðu að miklu leyti reitt sig á heimsóknir ferðamanna, enda fá vörur þeirra lítið pláss í ríkisbúðinni. Með breytingunni mætti því verja afkomu fjölda frumkvöðlafyrirtækja og starfsfólks þeirra, oft í brothættum byggðum úti á landi.

Ráðherra svaraði kallinu í lok september, en í samráðsgátt eru nú frumvarpsdrög um jafnræði í áfengisverslun. Málið er mikilvægt, enda núverandi ástand óviðunandi.

Í dag geta Íslendingar nefnilega keypt áfengi í netverslun án takmarkana, líkt og á öllu EES-svæðinu, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins. Eina skilyrðið er að netverslunin sé erlend, enda íslensk netverslun með áfenga drykki bönnuð með lögum. Ef íslensk smábrugghús vilja selja Íslendingum vörur sínar löglega gegnum netið þarf því að senda þær með flugvél eða skipi til útlanda, þaðan sem þær eru svo sendar strax aftur til Íslands gegnum erlenda netverslun.

Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru lýðheilsusjónarmið. Afleiðingarnar eru hins vegar augljósar. Aukið kolefnisspor og tekjutap íslenskra framleiðenda, auk skekktrar samskeppnisstöðu við erlend fyrirtæki. Líklega hefur aldrei verið mikilvægara en nú að styðja við nýsköpun og tryggja frjóan jarðveg fyrir lítil fyrirtæki. Frumvarp ráðherra gæti hleypt lífi í mörg fyrirtæki og tryggt störf.

Næsta rökrétta skref væri svo auðvitað að hleypa áfenginu í hillur kaupmannsins á horninu og styrkja stöðu hans gagnvart stóru risunum, sem deila bílastæði með útibúi ÁTVR.

Birtist á Vísi 9.10.2020

Borgin á hliðarlínunni

Nú leggjast þjóðarleiðtogar og ríkisstjórnir um allan heim á árarnar með innspýtingum í efnahagslífið, til að halda fyrirtækjum í rekstri og fólki í vinnu. Allt með það að markmiði að grynnka og stytta kreppuna vegna kórónuveirunnar. Íslensk stjórnvöld hafa kynnt þrjá aðgerðapakka sem talið er að kosti í kringum 350 milljarða króna. Íslenska ríkið er vel í stakk búið til að takast á við þessa atburði, þar sem það hefur markvisst greitt niður skuldir á síðustu árum.

Þessu er öfugt farið hjá Reykjavíkurborg, þar sem fram hefur farið fordæmalaus skuldaaukning í góðærinu sem nú hefur runnið sitt skeið. Þannig jukust skuldir borgarinnar um tæp 85 prósent að nafnverði á árunum 2012 til 2019 en eigið fé aðeins um tæp 19 prósent. Þar fór forgörðum gullið tækifæri til að safna í sarpinn.

Einn af tekjustofnum sveitarfélaga eru fasteignagjöld. Til grundvallar liggur fasteignamat, en hækkun þess í borginni hefur verið gríðarleg. Frá 2016 til 2021 hækkaði fasteignamat um tæplega 60 prósent. Það hefur hækkað um 22 prósent frá síðustu borgarstjórnarkosningum. Fasteignamat fjölbýlis í borginni hækkar um 2,4 prósent frá núverandi mati til næsta árs, í miðri kreppu.

Fasteignaskattar eru sérlega ósanngjörn skattheimta þar sem hún leggst beint á eignir fólks og fyrirtækja og leggst á sama skattstofninn ár eftir ár. Hún er heldur ekki í neinu sambandi við afkomu þeirra eða skerta afkomu líkt og nú þegar fjöldi borgarbúa hefur misst störf sín og fyrirtæki misst tekjustofna sína. Þessi hækkun gjalda er algjörlega úr takti við þær aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu. Í raun má segja að með því að halda álagningarhlutfalli óbreyttu sé borgin að taka hluta af þeim aðgerðapökkum sem ríkið hefur kynnt og stinga þeim í vasann.

Birtist í Fréttablaðinu 10.6.2020

Verjum störf í Reykjavík

Við stöndum frammi fyrir snörpum samdrætti í efnahagslífinu vegna COVID-19 veirunnar og það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við eins og hægt er. Bráðnauðsynlegt er að styðja við atvinnulífið til að verja störf og tryggja þannig afkomu heimilanna.

Ríkisstjórnin hefur nú þegar kynnt aðgerðapakka en lítið hefur heyrst frá sveitarfélögum. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði í Reykjavík hafa um langt skeið verið í lögbundnu hámarki og lítill hljómgrunnur verið hjá meirihlutanum fyrir tillögum Sjálfstæðisflokks um lækkun þeirra. Nú sést bersýnilega hversu mikilvægt er að yfirvöld sýni hófsemi í skattheimtu, svo heimili og fyrirtæki hafi viðspyrnu þegar harðnar í búi.

Tafarlaust ætti að lækka fasteignaskatta í borginni. Þar sem samdráttur er þegar skollinn á af fullum þunga þarf að ganga lengra til að draga úr áhrifum á fyrirtækin í borginni. Það er stórt hagsmunamál fyrir borgarbúa að geta snúið til vinnu eftir að þessu ástandi lýkur og fengið launagreiðslu í lok hvers mánaðar.

Mest aðkallandi er að styðja við lausafjárstöðu fyrirtækja svo þau sem hafa styrkan efnahagsreikning geti staðið af sér storminn. Því ætti að grípa til sambærilegra aðgerða og ríkisstjórnin hefur boðað. Í borginni gætu þær falist í að veita fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum erfiðleikum í rekstri, vegna samdráttar tekna, svigrúm með greiðslufresti á fasteignagjöldum og öðrum gjöldum borgarinnar. Nú er tækifærið að vernda langtímahagsmuni borgarinnar með því að styðja við íbúa hennar og fyrirtæki.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til aðgerðapakka til verndar störfum. Lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er þar á meðal. Meirihlutinn hefur hingað til svarað þeirri tillögu með því að það eigi að gera það seinna. Eins og ég hef ítrekað bent á, þá verður það of seint. Nú er lag fyrir meirihlutann í borgarstjórn að samþykkja þessar tillögur okkar.

Birtist á Vísi 18.3.2020

Pattstaða í Laugardal?

Íbúafjölgun á starfssvæði Þróttar verður á næstu árum að minnsta kosti sjö þúsund manns, meðal annars með tilkomu Vogabyggðar og annarra þéttingarreita í nágrenni Laugardals. Knattspyrnudeildin er orðin sú fjölmennasta í Reykjavík, Langholtsskóli fjölmennasti skólinn og hratt fjölgar í öðrum skólum í hverfinu. Þannig má öllum vera ljóst að ráðast þarf í uppbyggingu á svæðinu.

Iðkendum hjá Þrótti hefur fjölgað um 70% á síðustu fimm árum og félagið getur ekki með góðu móti tekið á móti fleiri börnum í knattspyrnu yfir vetrartímann. Samningar um nýtingu Laugardalshallar hafa ekki staðist svo æfingar í handbolta og blaki falla alltof oft niður. Það þýðir að vísa þarf börnum frá, sem þurfa þá að stunda slíkar íþróttir í öðrum hverfum eða sleppa því. Þróttarar hafa lagt til uppbyggingaráætlun sem birt hefur verið borgarráði. Félagið hefur boðað samráð við skólana í hverfinu um nýtingu á íþróttahúsi en engin íþróttaaðstaða er við Laugalækjarskóla og lítill salur við Laugarnesskóla. Grundvallarforsenda fyrir uppbyggingu og rekstri slíkra mannvirkja er samnýting, að þau séu í notkun sem flesta tíma dagsins.

Starfshópur á vegum borgarinnar, sem ég sjálf sit í, komst að þeirri niðurstöðu að uppbygging aðstöðu fyrir Þrótt og Ármann væri brýnni en önnur uppbygging í Laugardalnum og æskilegt væri að hefja skipulagsvinnu og rýni á rekstrarforsendum á svæðinu. Ekki er að sjá að þetta sjónarmið hópsins hafi skilað sér inn í fimm ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

Þrátt fyrir að talað sé um að greina þörf á aðstöðu fyrir börn og unglinga í Laugardal í meirihlutasáttmálanum, segir meirihlutinn í borgarstjórn nú að ekki sé hægt að leysa úr aðstöðuvanda í Laugardal fyrr en hinn flókni kapall um þjóðarleikvanga leystist. Enginn veit hversu langan tíma það mun taka, á meðan skulu íbúar Laugardals bíða og sætta sig við mun lakari aðstöðu en íbúar annarra hverfa. Borgarstjórinn, sem einnig hefur málefni þjóðarleikvanga á sínu borði, ætti hið minnsta að geta gefið íbúum Laugardals svör um hversu lengi í viðbót þeir þurfa að bíða.

Birtist í Fréttablaðinu 17.12.2019

Keisarinn er nakinn

Borgin eyðir tugum milljóna í auglýsingar og umsýslukostnað til að láta íbúa kjósa um sjálfsögð viðhaldsverkefni sem borgin á að sinna. Nú er komið í ljós að verkefnið, sem að mestu snýst um að setja upp grenndargáma og ruslafötur, fór 60 milljónum fram úr áætlun.

Hugmyndin um Hverfið mitt er prýðileg. Íbúar vita betur en stjórnmálamenn í hvaða framkvæmdir þarf að ráðast í hverfinu þeirra. Það er gott að virkja borgarbúa til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt. Það gerir hverfin betri og borgina um leið. Það er líka gott að færa fjárveitingarvald til íbúa því meirihlutinn í Reykjavík hefur hingað til ekki gefið tilefni til að láta treysta sér fyrir peningum skattgreiðenda. 

 En verkefnið virðist bara dýrt skálkaskjól. Er um raunverulegt íbúalýðræði að ræða þegar borgarbúar eru látnir kjósa á milli þess að setja upp gönguljós eða ungbarnarólu? Hvort vill fólk grenndargáma eða körfuboltavöll? Á að laga vatnsskemmdir á skólalóð eða setja nýja rennibraut í Laugardalslaug? Það getur varla talist íbúalýðræði að fá að kjósa um að setja sjálfsagt viðhald borgarinnar eða umferðaröryggi á oddinn. 

Ég fékk nýlega svar við fyrirspurn minni um sundurliðaðan heildarkostnað við Hverfið mitt á árinu 2018. Það var eins og marga grunaði. Tugir milljóna fara í auglýsingar og annan umsýslukostnað, til að leyfa íbúum að kjósa að mestu um sjálfsögð viðhaldsverkefni. Svo hljómaði kunnuglegt stef, verkefnið fór 60 milljónum fram úr áætlun. 

Væri ekki nær að þessir peningar, sem koma úr vasa skattgreiðenda, færu í að laga það sem er bilað og í að setja upp ruslafötur þar sem þarf? Spörum okkur að minnsta kosti rándýrt sýndarlýðræði.

Birtist í Morgunblaðinu 3.12.2019

Auðveldum rekstur í Reykjavík

Hækkun fasteignamats hefur verið langt umfram spár síðustu ár. Á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar hækkaði fasteignamat á atvinnuhúsnæði í Reykjavík um 48%. Það hefur  hækkað um 17% á þessu ári og mun hækka um 5% á næsta ári. Fasteignaskattar eru sérlega ósanngjörn skattheimta þar sem hún leggst beint á eigið fé fyrirtækja án þess að vera í neinu samræmi við afkomu þeirra auk þess sem hún leggst á sama skattstofninn ár eftir ár. Skatturinn hækkar sjálfkrafa með hækkandi fasteignamati, óháð afkomu fyrirtækis.

 Þrátt fyrir rúm 70% hækkun á fasteignamati hefur meirihlutanum í borgarstjórn ekki hugnast að lækka álagningarhlutfallið á atvinnuhúsnæði. Á síðasta ári lagði ég til lækkun álagsins við dræmar undirtektir meirihlutans. Ekki núna, bara seinna sögðu þau og báru einnig fyrir sig að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki lofað þessari skattalækkun fyrir kosningar. Það er fráleitt enda hefur lækkun skatta lengi verið eitt helsta stefnumál flokksins. 

 Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er með álagningarhlutfallið í lögfestu hámarki. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem stýrt er af Sjálfstæðisfólki, hafa annað hvort lækkað álagningarhlutfallið á þessu ári eða munu gera það á því næsta, að undanskildum Seltjarnarnesbæ þar sem skattar eru þegar lægri en í Reykjavík. Sum þeirra sem lækkuðu skattinn í ár ætla einnig að lækka hann aftur á næsta ári. Það gefur því augaleið að ofurskattheimta á fyrirtæki í Reykjavík skerðir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart fyrirtækjum í sveitarfélögum með lægri skattheimtu.

 Flestir rekstraraðilar sjá fram á þungan vetur. Launaskrið hefur verið mikið, ferðamönnum hefur fækkað og kólnun hefur átt sér stað í hagkerfinu. Borgin getur strax brugðist við til að létta undir með þeim með því að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Þess vegna mun ég, líkt og á síðasta ári, leggja til að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,6%. Núna, ekki seinna.

Birtist í Morgunblaðinu 29.11.2019

Nauðsyn, ekki lúxus

Þótt nýsköpunarfyrirtækin OZ og Plain Vanilla hafi ekki gengið eins og vonir stóðu til skildu þau eftir sig gífurleg verðmæti. Hugvit og starfsfólk sem stóð uppi reynslunni ríkari. Fyrrverandi starfsfólk OZ, eftir sára magalendingu, stofnaði tugi fyrirtækja. Eitt þeirra er CCP Games, stöndugt og skemmtilegt fyrirtæki þar sem eftirsóknarvert þykir að vinna. CCP hefur aftur getið af sér tugi nýrra fyrirtækja. Sömu sögu má segja af Plain Vanilla. Þegar nýsköpunarfyrirtæki fara á hausinn verða ekki eingöngu rjúkandi rústir eftir, heldur fólk sem lærir af reynslunni og gengur vonandi betur næst.

Samkeppni um fólk

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, kynnti nýlega nýsköpunarstefnu Íslands. Markmið hennar er að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir nýsköpun. Stefnan er mikilvæg og um margt framsækin. Ísland á nefnilega í harðri samkeppni við önnur lönd um fólk. Það er allra hagur að ungt fólk velji að búa hér. Af þeim sökum þarf landið að vera samkeppnishæft þegar kemur að hinum ýmsu lífsgæðum, til dæmis að hér séu störf við hæfi.

Talið er að minnst 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag. Það er því eitt af stóru málunum sem við stöndum frammi fyrir að skapa jarðveg svo ungt og vel menntað fólk geti haslað sér völl og skapað sér starfsvettvang. Nýsköpun er framtíðin og öflugt atvinnulíf er grundvallarforsenda velsældar. Séu ekki störf til staðar á Íslandi þá leitar fólk einfaldlega annað. Ungt og hæfileikaríkt fólk hefur alla burði til að kjósa með fótunum.

Nýsköpun er nefnilega nauðsyn, en ekki lúxus, líkt og ráðherrann komst svo vel að orði.

Birtist í Fréttablaðinu 17.10.2019

Ólympískar skattahækkanir

Frá árinu 2012 til 2018 hækkuðu skatttekjur Reykjavíkur um 48% umfram verðlag, eða 27,5 milljarða. Samt sem áður hafa skuldir borgarinnar aukist um 63% umfram verðlag, á fordæmalausum góðæristímum. Flestir skattar og opinber gjöld eru og hafa verið í leyfðu hámarki. Á þessu tímabili hafa mörg sveitarfélög ásamt íslenska ríkinu lækkað skuldir sínar.

Íbúar Reykjavíkur greiða hærra hlutfall tekna sinna til borgarinnar en íbúar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt skýrslu Samtaka atvinnulífsins frá síðasta ári. Rekstrartekjur Reykjavíkur námu tæpum 120 milljörðum árið 2018, sem þýðir að borgin hafði rúmar 330 milljónir til ráðstöfunar hvern einasta dag ársins. Það virðist þó ekki nóg.

Djúpir vasar

Á fundi borgarstjórnar í byrjun september var samþykkt að skoða nánar tillögu Sósíalista um að leita til hinna sveitarfélaga landsins með það að markmiði að mynda samstöðu um að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur með lögum frá Alþingi. Þrátt fyrir gríðarlegan tekjuvöxt leitast meirihluti borgarstjórnar eftir því að skattleggja íbúa borgarinnar enn frekar til að leysa rekstrarvandann, nú þegar kreppir að í efnahagslífinu.

Sem betur fer er ólíklegt að þessar hugmyndir verði að veruleika, enda standa flest sveitarfélög í landinu ágætlega vel að vígi. Þá ber að hafa í huga að mikil hækkun á fjármagnstekjuskatti myndi hafa ýmiss konar óæskileg áhrif, svo sem að draga úr sparnaði landsmanna.

Fyrst og síðast er umhugsunarvert að ætla að skattleggja sig út úr rekstrarvanda. Þá er athyglisvert að Viðreisn, sem á tyllidögum þykist vera frjálslyndur flokkur, tekur fagnandi undir þetta nýsköpunarstarf í skattheimtu. Ef meirihlutinn gæti sýnt jafn mikla hugmyndaauðgi á kostnaðarhliðinni og á tekjuhliðinni, væri Reykjavík eflaust í glimrandi málum. En það er því miður ekki þannig.

Birtist í Fréttablaðinu 19.9.2019

Rekstur í Reykjavík

Öflugt atvinnulíf er grundvallarforsenda velsældar. Atvinnulífið þrífst ekki án hvata og fyrirtæki dafna ekki án svigrúms til fjárfestinga og hagnaðar. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru jafn mikilvæg í samhengi hlutanna og þau stóru. Þau skapa 73% af rúmlega 150.000 störfum á almennum vinnumarkaði og greiða 69% af laununum. Háir skattar og íþyngjandi reglur erfiða rekstur þeirra. Flestir greiningaraðilar eru sammála um að veturinn verður rekstraraðilum þungur, þá sérstaklega þeim sem þjónusta ferðamenn. Við höfum nú þegar séð fréttir af veitingastöðum í Reykjavík sem leggja upp laupana í hrönnum, jafnvel staði sem átt hafa fastan stað í borginni í fjölda ára.

Vandinn er margþættur. Rekstraraðilar nefna langar kjaraviðræður og miklar launahækkanir. Hækkun á hráefniskostnaði, fækkun ferðamanna, framkvæmdir, slæma upplýsingagjöf frá Reykjavíkurborg, þunga og svifaseina stjórnsýslu og slæmt aðgengi. Íþyngjandi regluverk og flókna skriffinnsku, tafir við að fá rekstrarleyfi. Framkvæmdir sem dragast á langinn leiða til þess að enginn kemst um, hvorki akandi né gangandi, og verulegur skortur er á samráði við rekstraraðila.

Ríflega helmingur af verðmæti atvinnuhúsnæðis landsins er í Reykjavík. Þar er álagningarprósenta fasteignaskatts í lögbundnu hámarki. Hækkun á fasteignamati atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu nemur ríflega 65% frá árinu 2014 til 2019. Fyrirtækin í borginni hafa ekki notið vaxtar í rekstri sínum í líkingu við hækkun fasteignagjalda undanfarin misseri. Fasteignagjöld eru langstærsti útgjaldaliður félaga sem leigja út atvinnuhúsnæði, um 70% af rekstrarkostnaði þeirra. Þessi hækkun á fasteignamati síðustu ára leiðir til hækkunar leiguverðs. Meirihlutinn felldi tillögu Sjálfstæðisflokksins um að lækka þá strax á þessu ári.

Vandi fyrirtækja í Reykjavík er margþættur en hann steðjar að núna, ekki seinna. Mótvægisaðgerðir þurfa því einnig að eiga sér stað núna. Hið jákvæða er að borgin getur strax brugðist við til að létta undir með þeim. Hægt er að bæta upplýsingagjöf, samráð við rekstraraðila þegar kemur að framkvæmdum, einfalda ferla og lækka skatta. Þetta þarf að ráðast í núna, ekki síðar þegar það er of seint.

Birtist í Fréttablaðinu 20.08.2019

Syndaskattar

Skattkerfið á eingöngu að nýta til að afla ríkinu tekna til nauðsynlegra verkefna. Skattkerfið á ekki að nota til að stýra hegðun og neyslu skattgreiðenda. Reglulega dúkka þó upp hugmyndir um ýmsa syndaskatta í þeim tilgangi. Hugsunin kann að vera göfug en þessi lausn er vond.

Það er ákveðinn freistnivandi í pólitík að finna ekki sífellt upp nýja skatta og gjöld, undir fögrum fyrirheitum. Þegar á hólminn er komið renna þessir nýju skattar og gjöld í hítina og koma neyslustýringu, umhverfismálum, innviðum, sjónvarpsútsendingum eða hverju því verkefni sem stjórnmálamenn hafa ætlað sér að leysa, í raun ekkert við. Með því að búa til ný heiti mætti þó auka skattheimtu út í hið óendanlega.

Síðasta vinstri stjórn lagði sérstakan skatt á sykraðar vörur sem skilaði tæpum milljarði í ríkiskassann þar til hann var lagður niður, með tilheyrandi hækkun á vísitölu neysluverðs og þar með húsnæðislánum landsmanna. Upphæðin var hærri en áætlað og rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar frá 2015 bendir til að hann hafi ekki haft veruleg áhrif á neyslu. Síðasti sykurskattur hafði því ekki tilætluð áhrif á neyslu en jók tekjur ríkissjóðs.

Syndaskattar leggjast þyngst á lægri tekjuhópa. Þeir sem hafa lágar tekjur verja stærra hlutfalli að tekjum sínum í sama magn af sykri, tóbaki eða áfengi en þeir sem hafa hærri tekjur. Þannig auka syndaskattar ójöfnuð.

Verðbreytingar hafa ólík áhrif á eftirspurn eftir því um hvaða vöru ræðir. Reykingamaðurinn er þannig líklegri til að segja upp svo sem einni sjónvarpsstöð í stað þess að hætta að reykja. Þá þarf að huga að því hvað neytendur kaupa í stað hinnar skattlögðu vöru, en dæmi eru um að sykurskattar hafi aukið neyslu áfengis erlendis.

Lífsstílssjúkdómar eru raunverulegt vandamál. En ef það væri hægt að skattleggja öll vandamál í burtu væru sennilega engin vandamál á Íslandi.

Birtist í Fréttablaðinu 1.7.2019

Brostu - þú ert í beinni!

Nýlega spratt upp umræða á Twitter um eftirlitsmyndavél við Einarsnes í Skerjafirði. Hún er merkt umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að myndefninu er varpað, að ósk borgarinnar, í beinni útsendingu á vefsíðu Vegagerðarinnar. Nú veit ég ekki hvort íbúar við götuna, eða aðrir vegfarendur, eru sáttir við að vera í beinni útsendingu á netinu allan sólarhringinn, en málið vakti furðu mína. Við nánari eftirgrennslan komst ég að því að umhverfis- og skipulagssvið er með átta eftirlitsmyndavélar víðsvegar í borgarlandinu. Tilgangurinn er sagður vera sá að fylgjast með færð vega! Lögreglan er einnig með tugi myndavéla í borginni og vill tvöfalda fjöldann.

Áður fyrr var þessu eftirliti yfirleitt stýrt af fólki. Nú er því stýrt af tölvum sem hafa mikla vinnslugetu og geta unnið úr öllum upplýsingum jafnóðum. Andlitsgreining getur greint einstaklinga á mynd á augabragði, greint kyn, hvort viðkomandi er með tösku og margt fleira. Eftir því sem eftirlitsmyndavélum er fjölgað er auðveldara fyrir stjórnvöld (eða Vegagerðina í tilfelli Einarsness) að fylgjast með ferðum fólks, án nokkurs lögmæts tilefnis. Stjórnvöld í Kína hafa víða sett upp eftirlitsmyndavélar í landinu og nota þær til að fylgjast með fólki hvert sem það fer. Sama á við um nokkrar borgir í Bandaríkjunum og þar í landi er rætt um slíkt eftirlit í skólum. Félagi minn fór nýlega um LAX flugvöllinn í Los Angeles án þess að þurfa að sýna vegabréf, vélarnar þekktu hann.

Þegar tækninni fleygir fram þarf að doka við og stíga varlega til jarðar. Þarf að fylgjast með færð á Einarsnesi á sumrin eða yfirleitt? Talsmenn eftirlitssamfélags segja oft að þeir hafi ekkert að fela, eftirlitið sé til þess að góma lögbrjóta. En við megum ekki byggja upp samfélag þar sem allir eru sjálfkrafa tortryggðir meðan langflestir fara að lögum og reglum. Áður var viðkvæðið að fylgjast með þeim sem gerðu eitthvað af sér. Nú virðist það vera að fylgjast með öllum, alls staðar, öllum stundum.

Birtist í Fréttablaðinu 20.6.2019

Katie og svartholið

síðustu viku birtist í fyrsta skipti mynd af svartholi. Strax á eftir birtist mynd af ungri konu ásamt skjá með myndinni af svartholinu. Það fór ekki fram hjá neinum sem virti myndina af henni fyrir sér hversu stolt og ánægð hún var. Það var mynd af Katie Bouman, sem forritaði algrímið sem gerði kleift að setja saman myndina. Katie Bouman er 29 ára tölvunarfræðingur og hafði, ásamt 200 manna teymi, unnið að þessu markmiði í þrjú ár.

Störf framtíðarinnar
Talið er að það muni vanta 800 þúsund manns með tæknimenntun í Evrópu árið 2020. Auk þess er talið að minnst 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag. Þess vegna mun fólk þurfa að reiða sig mun frekar á tækni og tæknilæsi þegar kemur að störfum framtíðarinnar. Í dag eru konur miklu síður líklegri til að velja sér nám í tækni. Við verðum að auka veg þeirra, bæði svo þær missi ekki af tækifærum í þessum atvinnugreinum, en einnig því viljum ekki að ný tækni verði mótuð af körlum eingöngu. En hvað veldur því að konur sækja síður í þessar námsgreinar?

Skortur á fyrirmyndum
Ég tók nýlega þátt í málstofu sem bar yfirskriftina „Af hverju halda stelpur að þær geti ekki forritað?“. Allir sem þar komu fram voru sammála um að ástæðurnar væru sennilega margar og margþættar. Til dæmis er mikilvægt að kynna tækni og forritun fyrir börnum strax í grunnskóla, fólk velur sér ekki það sem það þekkir ekki. En hluti af ástæðunni er að fáar kvenkyns fyrirmyndir eru sýnilegar. Fyrirmyndir skipta nefnilega máli. Að sjá konur gera alls konar hluti, sáir fræjum hjá stelpum og gerir það að verkum að þær eru líklegri til að líta til þeirra starfa þegar þær hugsa um hvað þær vilja gera í framtíðinni.

Ég er fullviss um að við munum sjá fleiri stúlkur sækja sér menntun í tækni í framtíðinni, ekki síst vegna fyrirmynda á borð við Katie Bouman.

Birtist í Fréttablaðinu 15.4.2019

Frelsi til að grilla

Með bættum lífskjörum verða Íslendingar veraldarvanari. Algengt er að fólk ferðist víða um heim, verji tíma í stórborgum og jafnvel afli sér menntunar eða starfi erlendis. Það er vant fjölbreyttu borgarlífi sem og úrvali vöru og þjónustu. Það nýtur þess að heimsækja matarmarkaði og sælkerabúðir með fjölbreyttu úrvali ferskvöru, sem finna má í stórborgum. Það vill velja um jarðarber frá Spáni eða Íslandi og það hvort ferska steikin komi frá Hollandi eða Íslandi.

Ég fagna frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem heimilar innflutning á ófrosnum landbúnaðarvörum í auknum mæli. Takmarkanir á innflutningi ferskvöru eru óheimilar samkvæmt EES-samningnum auk þess sem það er neytendum alltaf til hagsbóta að hafa val. Ábati neytenda af frumvarpinu er metinn á 900 milljónir króna en kostnaður af því að hlíta ekki EES-samningnum næmi milljörðum.

Fryst nautakjöt hefur verið flutt til landsins í fjölda ára og er markaðshlutdeild þess um 23%. Þá hefur frysting lítil sem engin áhrif á veiru- og bakteríusjúkdóma í dýrum að mati yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis. Hér starfa öflugar stofnanir sem sinna eftirliti með innflutningi og þær munu, hér eftir sem hingað til, leggjast á eitt við að tryggja lýðheilsu og vernd búfjár.

Ísland á í harðri samkeppni við önnur lönd um fólk. Það er allra hagur að ungt fólk velji að búa hér. Landið þarf að vera samkeppnishæft þegar kemur að hinum ýmsu lífsgæðum. Þá skapast hvati fyrir íslenskan landbúnað að gera sínar afurðir að fyrsta kosti. Það mun óhjákvæmilega ýta undir nýsköpun í greininni. Síðan tollar voru felldir niður af tómötum, gúrkum og papriku hefur framleiðsla hérlendis aukist hressilega auk þess sem neytendur höfðu mikinn ábata af breytingunni.

Fyrst og fremst eigum við að treysta fólki. Við eigum að treysta íslenskum landbúnaði til að standast erlendum snúning, eftirlitsstofnunum til að sinna sínu eftirliti af myndugleika og ekki síst að treysta neytendum til að kjósa hvað þeir láta ofan í sig.

Birtist í Fréttablaðinu 6.3.2019

Bílastæði af herðum borgarinnar

Á ríkið að leggja vegina? Hjálpa fátækum? Styrkja listamenn? Passa börn og mennta þau? Hlúa að öldruðum? Tryggja öllum lífeyri? Handsama glæpamenn? Skipuleggja hverfi? Að þessu spyr enginn því þetta er í dag í verkahring hins opinbera og það er okkar raunveruleiki. Sá sem vill að listamenn afli sinna eigin tekna þurfa að koma á breytingum á kerfinu. Þeir sem telja að vegir hins opinbera séu ómögulegir á einn eða annan hátt þurfa að stinga upp á öðru fyrirkomulagi og fá það samþykkt. Þetta er hinn pólitíski dans.

En eru engin skýr mörk á milli þess sem klárlega á heima á frjálsum markaði og flestum þykir betra að sé á könnu hins opinbera? Jú, þau finnast hér og þar. Fæstir eru t.d. á því að það eigi að vera í verkahring hins opinbera að selja skó og tannbursta. Enginn heldur úti baráttu fyrir því að ríkisvæða bílaverkstæði landsins eða þjóðnýta matvöruverslanir. Fæstir hafa skýra grundvallarsýn á hlutverk hins opinbera en sætta sig við hlutina eins og þeir eru í dag og hika frekar en hlaupa þegar stungið er upp á breytingum.

Í Reykjavík blasir þó við að ákveðinn rekstur er í höndum hins opinbera sem á ekkert erindi þar, og það er rekstur bílastæðahúsa. Hvernig varð það hlutverk hins opinbera að reka steypukassa sem geyma bíla fyrir vinnandi fólk á dýrustu lóðum landsins? Var það af illri nauðsyn? Voru einkaaðilar of latir?

Hérna þurfa menn að anda með nefinu og hugsa málið aðeins. Af hverju er alltaf nóg af bílastæðum við Kringluna og Smáralind? Meira að segja á tímum jólaverslunar er alltaf hægt að finna laust stæði við þessar byggingar. Til að svara því af hverju einkaaðili byggði flennistórt bílastæðahús við Kringluna, sem er meira að segja gjaldfrjálst að nota, en ekki við Lækjargötu, þarf að notast við hugtakið hvata.

Ef hið opinbera er of þrúgandi, skattleggur of mikið, setur of mikið af reglum og takmarkar svigrúm rekstraraðila of mikið er ljóst að hann leggur upp laupana eða heldur sig fjarri frá upphafi.

Auðvitað á borgin ekki að reka bílastæðahús í miðbænum frekar en það eigi að sölsa undir sig bílastæðin við Kringluna. Borgin ætti að koma rekstri bílastæðahúsa í hendur sérhæfðra einkaaðila. Verður þá of dýrt að leggja í miðbænum? Varla, því þá standa bílastæðin tóm. Verður þetta arðbær rekstur á kostnað vinnandi fólks í miðbænum? Munum þá að arður laðar að sér samkeppnisaðila sem reyna að bjóða betur til að krækja í bita af kökunni. Munu bílastæðin verða vanrækt eins og grastún borgarinnar og holóttar göturnar? Það er hæpið því einkaaðili reynir alltaf að lokka til sín viðskiptavini.

Nú er svo komið að rekstur borgarinnar er í molum. Hluti skýringarinnar er sá að borgin hefur einfaldlega of mikið á sinni könnu. Að losna við rekstur bílastæðahúsanna gæti auðveldað borgaryfirvöldum að einfalda rekstur sinn og gera þá frekar minna og gera það vel en gera mikið og sinna því illa. Það er því tillaga okkar Sjálfstæðismanna á fundi borgarstjórnar í dag, að bjóða út rekstur bílastæðahúsanna.

Birtist í Morgunblaðinu 5.2.2019

Á skíði fyrir sumarbyrjun

Skíðasvæðin á höfuðborgarsvæðinu hafa setið á hakanum frá því í hruninu. Nú er svo komið að fjölskyldur í Reykjavík keyra til Akureyrar til að kenna börnunum sínum á skíði og snjóbretti. Tíðarfarið í vetur hefur vissulega ekki hjálpað, en með minniháttar fyrirhöfn væri hægt að hafa skíðasvæðin opin mun oftar.

Örfáum vikum fyrir kosningar í fyrra skrifuðu sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær og Garðabær, sem sameiginlega reka skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, undir samkomulag sem felur í sér að á næstu árum verði ráðist í endurnýjun á skíðasvæðunum. Þar kemur fram að á árinu skuli ráðast í snjóframleiðslu í Bláfjöllum.

Þessi grein er rituð í þeim tilgangi að minna þessa sömu stjórnmálamenn á skíðasvæðin okkar í borginni. Útivera í ómengaðri náttúru er hið besta mál. Hún er sögð draga úr streitu, kvíða og reiði, vekja hjá okkur góðar tilfinningar og bæta heilsu. Það er ekki að ástæðulausu að einn mælikvarði á gæði og lífvænleika borga er aðgengi að hreinni náttúru og útivist.

Reykjavík hefur alla burði til að vera framarlega á þessu sviði. Við höfum frábær útivistarsvæði í borginni. Skíðaíþróttin er ein sú besta þegar kemur að samveru. Hana er hægt að stunda frá því börn geta gengið og fram eftir öllu. Flestar íþróttir eru þannig að þú nýtur þeirra helst með jafnöldrum eða einhverjum sem er svipaður að getu, en þegar kemur að skíðum geta allir notið saman, óháð aldri og getustigi.

Loksins hefur sést í hvítan snjó í borginni. Desember 2016 var snjólaus en opnað var í Bláfjöllum um miðjan janúar 2017 og rættist vel úr vetrinum eftir það. Við skulum vona að svo verði líka í ár svo við getum öll skemmt okkur vel á skíðum fram eftir vori.

Drífum í því að setja upp búnaðinn í Bláfjöllum líkt og lofað var. Fyrir fólkið í borginni.

Birtist í Fréttablaðinu 18.1.2019

Læs en ekki skrifandi

Forritun liggur að baki nær allri tækni nú til dags. Þannig eru smáforrit í símum og forrit í tölvum. Vefsíður, tölvuleikir og jafnvel umferðarljós eru forrituð. Forritun er samskiptamáti okkar við tölvur, sameiginlegt tungumál. Í grunninn snýst forritun um að leysa vandamál.

Í dag má segja að börn séu læs þegar kemur að tækni en ekki skrifandi. Flest börn eru einungis neytendur tækni en skapa ekkert sjálf. Þau kunna að nota tölvur til að spila tölvuleiki, horfa á kvikmyndir á Netflix eða til að skoða samfélagsmiðla. Fæst kunna að þróa sínar eigin hugmyndir með tölvunni. Forritun er eina málið sem tölvur skilja og til að geta tjáð sig við tölvurnar þurfa börnin að læra tungumálið þeirra.

Tölvur og vélmenni eru stór hluti af daglegu lífi og munu verða enn stærri hluti þegar fram líða stundir. Í raun er tæknin svo samtvinnuð lífi okkar í dag að fólk er hætt að átta sig á hvenær það er að notfæra sér tæknina. Því er mikilvægt að börn hafi grundvallarskilning á því hvernig þessi tæki virka.

Flest störf framtíðarinnar munu krefjast tæknilæsi og því mikilvægt að byggja upp færni hjá börnum áður en það verður of seint. Ísland eru tæknisinnuð þjóð og hefur alla burði til að vera leiðandi í fjórðu iðnbyltingunni og þeim áframhaldandi tækniframförum sem eru í vændum.

Ekki bara fyrir nörda

Forritun er ekki einungis fyrir þá sem ætla sér að verða tölvunarfræðingar eða forritarar. Ekki frekar en við ætlumst til að allir verði smiðir þó við kennum smíði í grunnskólum. Hæfni í forritun er til margs nýtileg. Rökhugsun og færni til að brjóta vandamál í minni leysanlegar einingar er eitthvað sem börn munu búa að um aldur og ævi óháð því hvaða veg þau kjósa að feta.

Þess utan eykst þörfin fyrir fólk sem kann að forrita og skilur forritun með hverjum deginum. Þannig er áætlað er að 65% starfa framtíðarinnar séu ekki til í dag og allar líkur eru á að flest þau nýju störf sem skapast verði tæknistörf. Forritun er ekki bara fyrir nörda eða sérfræðinga heldur eitthvað sem tengist nánast öllu í daglegu lífi. Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kynna hana fyrir börnum.

Ástæður til að kenna forritun

Forritun er læsi 21. aldarinnar. Börnin okkar eiga að kunna að lesa og skrifa. Þá er mikilvægt að breyta staðalímyndinni um að forritun sé bara fyrir nörda og drengi sem spila tölvuleiki. Forritun er fyrir alla. Það þarf sérstaklega að huga að því að kynna fagið fyrir stúlkum þar sem mikill meirihluti þeirra sem útskrifast úr tölvunarfræði í dag eru drengir. Það sem við viljum í raun kenna er forritunarleg hugsun (e. computational thinking) og kennir okkur að brjóta niður vandamál í minni auðleysanlegri einingar, að þekkja mynstur í vandamálum og að leysa eitt vandamál í einu. Þannig kennum við börnunum okkar að nálgast vandamál með skapandi og lausnamiðuðum hætti.

Forritun þjálfar okkur í þessum þankagangi. Kennd er rökhugsun sem nýtist hvar sem er. Um leið er okkur kennt að skilja samfélagið og hlut tækninnar í því. Skapaður er góður grunnur fyrir framtíðina þar sem stór hluti starfa mun sem fyrr segir reiða sig á tækni og tæknilæsi.

Forritun getur jafnframt þjálfað börn í þrautseigju. Þegar leysa þarf mörg lítil vandamál og koma með hverja lausnina á fætur annarri þarf að standast mótlæti þegar lausnin virkar ekki. Það gefur líka margfalt til baka þegar þeim tekst loksins að finna réttu lausnina.

Þá er forritun mun meira skapandi en margir gera sér grein fyrir og eykur því færni á því sviði. Það göfgar einstaklinginn mjög að skapa, byggir upp sjálfstraust og veitir áþreifanlegt virði. Auðvelt er nýta forritun í tengslum við aðrar skapandi greinar innan grunnskóla eins og í sjónlistum.

Horft til nágrannalanda

Forritun er kennd í flestum þeim löndum sem Íslendingar kjósa að bera sig saman við. Árið 2012 var Eistland fyrsta landið í Evrópu til að innleiða forritun í námskrá sína fyrir öll börn frá fyrsta skólastigi. Árið 2014 voru fimmtán þjóðir í Evrópu með forritun í námskrá og þar af níu sem kenna forritun frá fimm ára aldri. Þar má til dæmis nefna Eistland, Frakkland, Spán, England, Finnland og Pólland. Lönd sem hafa innleitt forritun á eldri skólastigum eru til dæmis Danmörk, Austurríki og Búlgaría. Svíþjóð bætti forritun á námskrána sína frá hausti 2018 og Norðmenn eru með það á stefnuskrá hjá sér.

Sum lönd kenna forritun sem sér námsgrein en önnur, líkt og Finnar, kenna forritun frá sex ára aldri þvert á aðrar greinar. Danir kenna forritun tengda raungreinum, aðallega stærðfræði. Af þessu getum við lært. Það er til margra landa að líta þegar kemur að innleiðingu hér.

Staðan hérlendis

Forritun var fyrst nefnd í aðalnámskrá grunnskóla árið 1996. Í nýjustu útgáfunni, frá 2013, er vægi forritunar í raun minnkað og sett meiri áhersla á þekkingarleit á netinu og notkun forrita.

Árið 2015 var lögð fram tillaga um að koma forritun í aðalnámskrá en þau svör fengust að svo væri nú þegar. Sú er ekki raunin, eina sem aðalnámskrá grunnskóla hefur að segja um forritun er að við lok 10. bekkjar geti nemandi nýtt hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt. Það er því skólanna að túlka hversu mikla forritun skal kenna. Það veltur á áhuga og getu kennara hversu mikið forritun er tvinnuð inn í námsefnið.

Þá er það hlutverk stjórnmálamanna að búa svo um hnútana að allir kennarar geti sótt sér menntun og þau tæki og tól sem þarf til að koma forritun í kennslu.

Árið 2016 var farið af stað með verkefni sem fólst í því að gefa öllum börnum í 6. og 7. bekkjum grunnskóla forritanlegar smátölvur sem kallast micro:bit. Þetta var stærsta verkefni sem hefur verið ráðist í til að efla forritunarkennslu á Íslandi. Þetta var samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar, RÚV og Samtaka iðnaðarins. Það gekk vel meðan á því stóð og voru tölvurnar afhentar um 9.000 nemendum. Verkefnið hefur því miður verið lagt af.

Þá var einstaklega sorglegt að sjá að í glænýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 er ekki minnst einu orði á forritun – en lítillega rætt um eitthvað sem kallað er heildstæð nýting stafrænnar tækni.

Það er til ekki marks um mikla framsýni eða tilfinningu fyrir því hvernig samfélagið er að þróast. Það er ábyrgðarhluti þeirra sem hafa með mótun menntakerfisins að gera að búa þannig um að börnin okkar séu vel í stakk búin til þess að takast á við lífið þegar skólagöngu þeirra lýkur.

Margir skólar hafa tekið sig til og bætt forritun í sitt námsefni. Árskóli á Sauðárkróki er þar einna öflugastur. Þar er forritun kennd sem skyldufag á miðstigi og sem valfag á unglingastigi. Þar fá krakkarnir að forrita og leika sér með vélmennið Sphero. Sphero er búinn til sem kennslutól til að kenna börnum forritun og til að örva skapandi hugsun. Sphero er lítil kúla sem er hægt að forrita til að færa á milli staði og í Árskóla hefur hann til dæmis verið notaður til að endurgera senur úr bíómyndum og fleira skemmtilegt. Í Reykjavík hefur Hólabrekkuskóli gert tilraunir með forritunarkennslu frá 1. bekk og tvinnar forritun og aðra tækni nú við fleiri námsgreinar á miðstigi. Þar er tölvuleikurinn Minecraft til dæmis notaður til að kenna börnum forritun, stærðfræði, ensku og samfélagsfræðigreinar.

Helstu vandamál

Nýjungar kalla á óvissu og aðlögun, það er mikilvægt að hjálpa kennurum að tileinka sér nýtt efni og nýjar aðferðir. Það þarf að líta á forritun sem hluta af læsi og allir þurfa að laga sig að því. Með fjórðu iðnbyltingunni skapast mörg störf sem ekki eru til í dag, störf þar sem þarf að reiða sig á tæknilæsi og forritunarkunnáttu. Við verðum að undirbúa þau börn sem eru í skóla í dag undir það.

Kennarar verða að fá þá aðstoð sem þeir þurfa. Það þarf líka að hafa öfluga símenntun á sviðinu því tæknin tekur örum framförum og mikilvægt að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum. Grunnskólar verða líka að hafa aðgang að þeim tækjum og tólum sem nýtast við kennsluna.

Niðurstaða

Forritunarkennsla ætti að vera hluti af námi í grunnskólum. Hún eflir ýmsa mikilvæga þætti hjá börnum sem eru nauðsynlegir í nútíma samfélagi. Forritun og forritunarleg hugsun eykur færni í að leysa vandamál, rökhugsun og sköpunargáfu. Áætlað er að árið 2020 muni vanta 800.000 manns með tæknimenntun í Evrópu. Við verðum að undirbúa börnin fyrir framtíðina.

Við getum ekki beðið lengur, við verðum að byrja núna.

Birtist í vetrarhefti Þjóðmála, 4. tbl. 2018