Með vindinn í hárinu
Árið 2010 samþykkti borgarstjórn fyrstu hjólreiðaáætlun Reykjavíkur. Yfirskrift hennar var Hjólaborgin Reykjavík. Síðan þá hefur hlutdeild hjólreiða sem ferðamáta í borginni aukist jafnt og þétt eftir því sem innviðir hafa byggst upp og áhugi aukist á hreyfingu, útivist og heilbrigðum lífsstíl. Samkvæmt ferðavenjukönnun árið 2019 er hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum í Reykjavík 7% en markmið hjólareiðaáætlunar sem rennur sitt skeið á enda í lok þessa árs var 6,5%.
Nú stendur yfir vinna við hjólreiðaáætlun til 2025 sem ég stýri ásamt fulltrúum úr meirihlutanum. Það er kominn tími til að taka hjólreiðar í borginni í næsta gír og því mikil og spennandi vinna fram undan. Hópurinn er sammála um að öryggi skuli vera rauði þráðurinn í nýrri áætlun, svo öllum líði eins og þau geti ferðast örugglega á milli staða á hjóli. Hjólreiðar eiga að vera fyrir alls konar fólk og á alls konar hjólum.
Á tímum COVID hafa hjólreiðar aukist í borgum Evrópu. Í Reykjavík var ásóknin slík í vor að hjólabúðir voru margar hverjar tómar. Ríkisstjórnir heims keppast við að fjárfesta í grænni og heilsusamlegri ferðamátum, þau áhrif má sjá hér í sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Með nýrri tækni aukast tækifæri til hjólreiða. Rafhjólum fjölgar hratt og þá skipta brekkur og rok síður máli við val á samgöngumáta.
Samkvæmt nýlegri könnun Maskínu vilja 27% höfuðborgarbúa helst hjóla til vinnu en 10% gera það samkvæmt sömu könnun. Það er okkar hlutverk í stýrihópnum um nýja hjólreiðaáætlun að komast að því hvað vantar upp á til að fólk hjóli og bæta úr því. Fólk þarf að hafa frelsi til að velja þann ferðamáta sem það kýs helst.
Í mínum huga er lúxus að hjóla, fá tíma til að hugsa málin, hlaða rafhlöðuna, fá blóðið á hreyfingu og roða í kinnarnar. Engin bið í umferð og ég legg við dyrnar á áfangastað án þess að leita að bílastæði. Svo er líka bara svo skemmtilegt að hjóla.