Auðveldum rekstur í Reykjavík
Hækkun fasteignamats hefur verið langt umfram spár síðustu ár. Á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar hækkaði fasteignamat á atvinnuhúsnæði í Reykjavík um 48%. Það hefur hækkað um 17% á þessu ári og mun hækka um 5% á næsta ári. Fasteignaskattar eru sérlega ósanngjörn skattheimta þar sem hún leggst beint á eigið fé fyrirtækja án þess að vera í neinu samræmi við afkomu þeirra auk þess sem hún leggst á sama skattstofninn ár eftir ár. Skatturinn hækkar sjálfkrafa með hækkandi fasteignamati, óháð afkomu fyrirtækis.
Þrátt fyrir rúm 70% hækkun á fasteignamati hefur meirihlutanum í borgarstjórn ekki hugnast að lækka álagningarhlutfallið á atvinnuhúsnæði. Á síðasta ári lagði ég til lækkun álagsins við dræmar undirtektir meirihlutans. Ekki núna, bara seinna sögðu þau og báru einnig fyrir sig að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki lofað þessari skattalækkun fyrir kosningar. Það er fráleitt enda hefur lækkun skatta lengi verið eitt helsta stefnumál flokksins.
Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er með álagningarhlutfallið í lögfestu hámarki. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem stýrt er af Sjálfstæðisfólki, hafa annað hvort lækkað álagningarhlutfallið á þessu ári eða munu gera það á því næsta, að undanskildum Seltjarnarnesbæ þar sem skattar eru þegar lægri en í Reykjavík. Sum þeirra sem lækkuðu skattinn í ár ætla einnig að lækka hann aftur á næsta ári. Það gefur því augaleið að ofurskattheimta á fyrirtæki í Reykjavík skerðir samkeppnisstöðu þeirra gagnvart fyrirtækjum í sveitarfélögum með lægri skattheimtu.
Flestir rekstraraðilar sjá fram á þungan vetur. Launaskrið hefur verið mikið, ferðamönnum hefur fækkað og kólnun hefur átt sér stað í hagkerfinu. Borgin getur strax brugðist við til að létta undir með þeim með því að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Þess vegna mun ég, líkt og á síðasta ári, leggja til að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65% í 1,6%. Núna, ekki seinna.
Birtist í Morgunblaðinu 29.11.2019