Sonur okkar hjóna er nýorðinn fimm ára. Hann er á leikskóla í hverfinu okkar. Dóttir okkar verður tveggja ára í júní, hún er í dagvistun hjá dagforeldri. Hún hefur ekki enn fengið úthlutuðu plássi á leikskóla en ég bind vonir við að hún fái pláss þar í haust í kringum tuttugu og sjö mánaða.
Frá því að fæðingarorlofi lýkur, í síðasta lagi við níu mánaða aldur barns, tekur við ákveðið tómarúm. Reykjavíkurborg lofar öllum börnum plássi á leikskóla frá átján mánaða aldri. Sú er ekki alltaf raunin og mörg börn komast mun síðar að. Ein ástæða er að ekki fá allir leikskólapláss í sínum hverfum.
Það er ekki raunverulegur valkostur fyrir alla að hafa börn sín í leikskóla í öðru hverfi. Í okkar fjölskyldu er til að mynda grunnforsenda að við hjónin getum gengið með börnin í dagvistun, þar sem við reynum að ganga eða hjóla sem mest til vinnu. Foreldrar sem búa í barnmörgum hverfum, eða í hverfum með vinsælum leikskólum, þurfa að bíða lengur. Þá skiptir máli hvenær ársins börn eru fædd. Mesta hreyfingin á leikskólaplássum er á haustin þegar elstu börnin hefja nám í grunnskóla.
Umframkostnaður
Mikilvægt er að tryggja jafnræði þeirra sem styðjast við dagforeldra og þeirra sem fá pláss á leikskóla. Foreldrar barna hjá dagforeldrum bera töluvert meiri kostnað.
Dóttir okkar verður tuttugu og sjö mánaða í haust þegar aðlögun hefst á leikskólanum. Þangað til verður hún hjá dagforeldrinu. Það er ekkert þak á gjaldskrá dagforeldra en nokkur sanngirni virðist ríkja víðast hvar. Okkar dagforeldri tekur sextíu og sjö þúsund krónur á mánuði. Við erum ánægð með dagforeldrið svo við borgum það með glöðu geði.
Leikskólapláss kostar rúmar tuttugu og fimm þúsund krónur á mánuði. Dóttir okkar verður níu mánuði hjá dagforeldrinu fram yfir átján mánaða aldurinn, þann aldur sem borgin lofar leikskólaplássi. Við greiðum, að teknu tilliti til sumarfrís, átta mánuðum lengur til dagforeldris en foreldrar barna sem eru fædd á heppilegri tíma á árinu, búa í réttu hverfi eða hafa tækifæri til að vista barn sitt í öðru hverfi.
Þessa átta mánuði munum við því greiða rúmum þrjú hundruð og þrjátíu þúsund krónum meira en þessir foreldrar. Þetta er ekki jafnræði. Mikilvægt er að auka niðurgreiðslu til dagforeldra svo allir foreldrar átján mánaða barna búi við sömu kjör.
Eflum stétt dagforeldra
Endalaus loforð um yngri vistunaraldur á leikskóla ásamt aðstöðuleysi eykur óvissu um rekstrargrundvöll dagforeldra, enda hefur þeim fækkað um 30% á síðustu árum. Fæðingarorlofi lýkur við níu mánaða aldur en leikskólinn tekur við í fyrsta lagi níu mánuðum síðar.
Það tekur tíma að byggja nýjar deildir og ungbarnaleikskóla. Meðan ekki er búið að manna leikskólana eins og þeir eru í dag þarf eitthvað stórkostlegt að gerast til að hægt verði að manna þessar nýju deildir. Einnig kjósa sumir foreldrar að hafa ung börn sín á minni stöðum með færri börnum og stöðugra umhverfi.
Nauðsynlegt er að styrkja stétt dagforeldra, ekki útrýma henni. Að hjálpa dagforeldrum að koma sér upp aðstöðu. Auka þarf niðurgreiðslu til dagforeldra, bæði til að stuðla að jafnræði en einnig til að treysta rekstrargrundvöll þeirra.
Birtist á Kjarnanum 31.3.2018