Perlan Öskjuhlíð
Við Reykvíkingar eigum frábært útivistarsvæði í miðbænum, Öskjuhlíð. En því miður virðist borginni ekki þykja vænt um þessa paradís. Lítið heyrist rætt um Öskjuhlíðina nema ef ske kynni þegar stórfellt skógarhögg hefur átt sér stað til að tryggja aðflug flugvéla til lendingar í miðbænum.
Í Öskjuhlíðinni þrífast allskonar misjafnir hlutir. Þar hefst fólk við, jafnvel í tjöldum og hreysum, ekki þarf að ganga lengi um til að finna ummerki um fíkniefnaneyslu og aðra hluti sem ættu ekki að eiga sér stað á útivistarsvæði.
Gönguhópar hafa tekið að sér að þrífa heilmikið rusl árlega og hjólreiðamenn og larparar hafa einnig tekið hlíðina fögru í fóstur. En betur má ef duga skal.
Gera þarf skóginn aðgengilegri, hreinsa þarf rjóður, setja upp leiktæki og grillstaði. Loka þarf fyrir umferð og fjarlægja vegslóða. Horfa má til hins frábæra útivistarsvæðis Akureyringa, Kjarnaskógar. Á góðviðrisdögum iðar allt af lífi þar, fjölskyldur koma saman til að njóta útiveru og borða gott nesti.
Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands er Öskjuhlíð fjölsóttasta útivistarsvæði landsins. Nú hefur uppbygging átt sér stað í Perlunni, þar má finna jöklasýningu og kaffihús. Tímabært er að gera Öskjuhlíðinni hátt undir höfði eins og hún á skilið. Í stað þess að borgin gleymi henni nema þegar tré þurfa að víkja fyrir flugvélum.