Einfarinn
Eins og margt fólk á mínum aldri byrjaði ég að hlaupa í janúar. Fékk mér þjálfara og fór að eltast við að ná betri tímum og komast lengra. Síðan þá hef ég eytt 138 klukkutímum á hlaupum. Oftast ein, stundum með einhverjum. Ég hef vakið upp gamalt keppnisskap og tekið þátt í almenningshlaupum og verið ósátt við að vinna ekki, samt skiptir þetta nákvæmlega engu máli. Hlaup eru að mínu mati hin fullkomna hreyfing einfarans. Í 138 klukkutíma hef ég, að mestu, verið ein með hugsunum mínum í umhverfi sem mér þykir vænt um.
Ég bý í Laugardal og eyði mestum tíma á hlaupum þar í kring. Ég er farin að þekkja hvernig kílómetrarnir skiptast og hverja beygju og holu í nágrenninu. Ég er búin að dást að trjánum laufgast og blómum springa út í Grasagarðinum og er líka búin að horfa á laufin fölna og fjúka út í buskann meðan ég berst við vindinn og rigninguna. Ég fylgdist með uppbyggingu nýs æfingasvæðis Þróttar frá hugmynd að opnun.
En á öllum þessum hlaupum, ein með hugsunum mínum, hef ég lært að meta litlu hlutina í lífinu. Að drekka morgunkaffið í sturtu og finna lyktina af pallaolíu og nýslegnu grasi, að sitja fundi þar sem þarf ekki mælendaskrá og fólk á einfaldlega eðlileg samskipti og kemst að niðurstöðu. Um daginn fór ég meira að segja á fund þar sem fundargestir sammæltust um að fundurinn væri óþarfur og slitu honum. Það var sannarlega einn sá besti fundur sem ég hef farið á. Svo komst ég líka að þeirri niðurstöðu að þegar ríkið selur eignir er mikilvægt að ferlið sé hafið yfir allan vafa, því ríkið verður að geta haldið áfram að losa um hluti sína í fyrirtækjum sem eiga að sjálfsögðu heima á frjálsum markaði, en ekki hlaupa í fang þeirra sem telja að ríkisrekstur sé lausn allra vandamála.